image

Um Matarstíginn

 

Matarstígur Helga magra var stofnaður 3. mars árið 2020. Í raun er hann markaðs- og nýsköpunardrifið verkefni. Tilgangur hans er að sameina matvælaframleiðendur, veitingaaðila og ferðaþjónustuna í Eyjafjarðarsveit í eitt verkefni með það markmið að búa til mataráfangastað í heimsklassa. Til að svo megi verða þarf annars vegar að efla hag matvælaframleiðenda og skapa þeim aðstæður til að koma afurðum sínum á framfæri og búa til frekari verðmæti úr þeim og að fjölga ferðamönnum.  

Verkefnið var í mótun og undirbúningi allt frá árinu 2015 og fékk því að þróast og gerjast í nokkur ár áður en það var sett í formlegan farveg. Matvælaframleiðsla er mikil og fjölbreytt í Eyjafjarðarsveit. Hér eru framleiddar afurðir eins og lambakjöt, nautakjöt, hrossakjöt, svínakjöt, paprikur, gúrkur, egg, kartöflur, býhunang, að ógleymdum mjólkurafurðum en skv. upplýsingum frá Landssambandi kúabænda eru um 10% af allri mjólkurframleiðslu á Íslandi úr Eyjafjarðarsveit.  

Starfsemi Matarstígsins á fyrsta starfsári var ákveðin þessi á stofnfundi í mars 2020: 

  • Bændamarkaðir, þar sem seldar eru afurðir framleiðenda. 
  • Uppsprettiviðburðir einstakra þátttakenda, matartengdir viðburðir sem hver og einn ber ábyrgð á sjálfur.
  • Matarhátíð Helga magra í tengslum við Handverkshátíðina á Hrafnagili, matartengdir viðburðir á veitingastöðum og kaffihúsum, kynning á starfseminni á Handverkshátíðinni. 
  • Þátttaka í Localfood matarhátíð í Hofi á Akureyri í október, matvælasýning auk matartengdra viðburða hjá veitingaaðilum í sveitinni.  

Covid-19 setti hins vegar strik í reikninginn svo fækka varð bændamörkuðum frá fyrri áætlun, matarhátíðin var blásin af og sömu sögu er að segja af Local food hátíðinni. En nú í september förum við aftur af stað með bændamarkaðina sem vöktu mikla lukku í sumar í þau tvö skipti sem þeir voru haldnir.  

Þátttakendur í verkefninu eru nú 16 talsins, 6 matvælaframleiðendur / stærri veitingaðilar, 5 kaffihús / gististaðir og 5 smærri framleiðendur.  Við eigum marga inni meðal smærri framleiðenda en það er okkar trú að þeir komi til liðs við okkur í auknum mæli eftir því sem verkefnið þróast áfram.  

Matarstígurinn hefur verið með verkefni í gangi í sumar sem heitir Vistvæn dreifileið og gengur út það að einu sinni í viku fer rafbíll á milli framleiðenda og sækir vörur sem veitingaaðilar í sveitinni hafa pantað og kemur þeim til skila á eins umhverfisvænan máta og unnt er. Næsti fasi í þessu verkefni er kominn í vinnslu en það er gerð söluvefsíðu fyrir afurðir úr Eyjafjarðarsveit sem almenningur hér í sveit og á Akureyri getur pantað og fengið sent til sín með sama hætti, á umhverfisvænan máta. Stefnt er á opnun í október 2020. 

Næstu skref verkefnisins er að markaðssetja afurðir úr Eyjafjarðarsveit. Við teljum það vænlegra að framleiðendur innan Matarstígsins komi fram undir einu merki í stað þess að hver og einn þurfi að markaðssetja sínar vörur og finna sínar söluleiðir. Þetta verkefni er einstakt á landsvísu og á meðan Matarstígur Helga magra getur haldið utan um markaðssetningu afurða, geta framleiðendur einbeitt sér að framleiðslu og þróun sinna afurða. 

Á vefsíðunni www.matarstigur.is má finna upplýsingar um verkefnið fyrir þátttakendur, almenning og fjölmiðla.  

Styrktaraðilar